Rafræn skilríki og veflyklar
Ríkisskattstjóri leggur áherslu á að rafræn skilríki verði í auknum mæli notuð til auðkenningar og þar sem við á, einnig til undirritunar. Rafræn skilríki eiga með tímanum að leysa drjúgan hluta veflykla af hólmi.
Hver einstaklingur og hvert félag getur átt allt að fjóra veflykla. Annars vegar eru það almennir lyklar, sem eru aðalveflykill og skilalykill fagaðila. Hins vegar sérlyklar til nota í atvinnurekstri, fyrir rafræn skil á staðgreiðslu og virðisaukaskatti. Þeir nýtast að auki til rafrænna skila á öðrum gjöldum og sköttum, s.s. fjársýsluskatti, tryggingagjaldi, fjármagnstekjuskatti og gistináttaskatti.
Rafræn skilríki
Rafræn skilríki eru ætluð til notkunar í rafrænum samskiptum. Þau má nota til að auðkenna sig rafrænt, t.d. við innskráningu á þjónustuvef ríkisskattsjóra skattur.is. Einnig má nota rafræn skilríki til að undirrita rafræn skjöl og jafngildir sú undirritun því að pappírsgögn séu undirrituð eigin hendi.
Þegar hægt er að nálgast sífellt meiri upplýsingar á einum stað aukast kröfur um öryggi gagna. Ríkisskattstjóri leggur áherslu á að rafræn skilríki verði í auknum mæli notuð til auðkenningar og einnig, þar sem við á, til undirritunar.
Með notkun rafrænna skilríkja er hægt að auka öryggi, einfalda aðgangsstýringu og draga verulega úr umsýslu með veflykla. Að auki mun væntanleg aðgangsstýring ríkisskattstjóra gefa notendum rafrænna skilríkja kost á að stýra aðgangi að eigin upplýsingum og ákveða þar með öryggisstig gagna sinna sjálfir. Á það ekki síst við um atvinnufyrirtæki.
Einstaklingar geta nýtt sér rafræn skilríki til auðkenningar á þjónustuvef skattyfirvalda og til skila á skattframtali.
skilriki.is
Á vefsíðunni skilriki.is er að finna gagnlegar upplýsingar um rafræn skilríki í farsíma og skilríki á debetkortum og einkakortum.
Þá veitir audkenni.is nánari upplýsingar um rafræn skilríki. Sjá einnig síðuna Rafræn skilríki hér á skatturinn.is.