Notendastýrðri persónulegri aðstoð (NPA) er ætlað að koma til móts við þarfir fatlaðs fólks og felst í því að notandinn velur sér sjálfur það aðstoðarfólk sem hann kýs. Allir þeir sem eiga lögheimili á Íslandi og falla undir lög um málefni fatlaðra geta sótt um NPA þjónustu. Forsjáraðili sækir um fyrir þann sem ekki hefur náð 18 ára aldri. Lagt er mat á stuðningsþörf og ákveðið hversu margar vinnustundir notandinn á rétt á. Greidd er ákveðin fjárhæð á vinnustund (2.800 kr.).
Annað hvort er gerður einstaklingssamningur á milli notanda (eða forsjáraðila hans) og sveitarfélags eða samningur við sjálfstæðan aðila, sem gert hefur samstarfssamning við sveitarfélagið um að bjóða upp á umsýslu með NPA þjónustu.
1. Þegar notandi/forsjáraðili er umsýsluaðili með NPA-þjónustunni
Ef notandi eða forsjáraðili hans er sjálfur umsýsluaðili með NPA þjónustunni er þetta ekki atvinnurekstur. Þegar af þeirri ástæður kemur í þessum tilvikum ekki til þess að um virðisaukaskattsskyldu sé að ræða. Við þessar aðstæður þarf að gera grein fyrir greiðslum frá sveitarfélaginu og ráðstöfun þeirra í persónuframtali notandans, ef hann er eldri en 18 ára, eða forsjáraðili, ef notandinn er yngri en 18 ára.
1.1. Skattframtal – launagreiðslur - verktakagreiðslur
Notandi er yngri en 18 ára
Gera ber grein fyrir greiðslunum í skattframtali forráðamannsins í lið 2.3 í („Annað, hvað?“) og ráðstöfun þeirra í reit 157 samkvæmt sérstakri sundurliðaðri greinargerð. Um frádrátt fer eftir 2. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Persónulegur kostnaður notandans er ekki frádráttarbær heldur einungis kostnaður sem greiðslunum er ætlað að standa undir. Greiðslur umfram kostnað teljast almennt skattskyldar hjá forráðamanni.
Ef forsjáraðili tekur sjálfur að sér aðstoð við notanda sem nemur fleiri en 10 klst. á viku þarf hann að vera á launagreiðendaskrá sem aðili utan atvinnurekstrar (sjá eyðublað RSK 5.02) og gera skil á staðgreiðslu, tryggingagjaldi og iðgjaldi í lífeyrissjóð mánaðarlega miðað við 1.900 kr. laun á klukkustund. Ef vinnan við aðstoðina nær ekki 10 klst. á viku þarf ekki að gera skil mánaðarlega heldur kemur mismunur á greiðslum og kostnaði til tekna hjá forráðamanninum í gegnum færslu í skattframtal hans.
Greiðslur til aðstoðarmanna, annarra en forráðamanns, geta annað hvort verið laun eða verktakagreiðslur. Ef aðstoðarmönnum eru greidd laun þá þarf forsjáraðili að vera á launagreiðendaskrá vegna þeirra launagreiðslna og gera skil á staðgreiðslu, tryggingagjaldi og iðgjaldi í lífeyrissjóð af greiddum launum til aðstoðarmannanna. Ef einungis er um að ræða verktakagreiðslur þarf að gefa upplýsingar um þær á launamiða. Gera þarf grein fyrir greiddum launum og verktakagreiðslum í launamiða, RSK 2.01 að loknu tekjuári og í eyðublaðinu RSK 4.05 með skattframtali sínu, í B-kafla/leiðrétting.
Notandi er 18 ára og eldri
Notandi NPA þjónustu sem sjálfur er umsýsluaðili og er eldri en 18 ára þarf að gera grein fyrir greiðslunum frá sveitarfélaginu í skattframtali sínu í lið 2.3 í („Annað, hvað?“) og ráðstöfun þeirra í reit 157 samkvæmt sérstakri sundurliðaðri greinargerð. Um frádrátt fer eftir 2. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003. Persónulegur kostnaður notandans er ekki frádráttarbær heldur einungis kostnaður sem greiðslunum er ætlað að standa undir. Greiðslur umfram kostnað teljast almennt skattskyldar hjá notandanum.
Greiðslur til aðstoðarmanna, hvort heldur þar er um skyldmenni að ræða eða utanaðkomandi, geta annað hvort verið laun eða verktakagreiðslur. Ef um er að ræða launagreiðslur til aðstoðarmanna þá þarf notandi að vera á launagreiðendaskrá sem aðili utan atvinnurekstrar (sjá eyðublað RSK 5.02) og standa skil á staðgreiðslu, tryggingagjaldi og iðgjaldi í lífeyrissjóð af greiddum launum til aðstoðarmanna sinna. Ef einungis er um að ræða verktakagreiðslur þarf verktakinn að skrá sig á launagreiðendaskrá og gera skil á staðgreiðslu, tryggingagjaldi og iðgjaldi í lífeyrissjóð af launum sínum. RSK mun almennt ekki gera athugasemdir um verktöku í þessum málum, a.m.k. ekki á meðan um tilraunaverkefni er að ræða. Notandinn þarf að gera grein fyrir bæði launagreiðslum og verktakagreiðslum á launamiða, RSK 2.01, að loknu tekjuári, og í eyðublaðinu RSK 4.05 með skattframtali sínu, í B-kafla/leiðrétting.
2. Þegar umsýsluaðili er lögaðili eða sjálfstætt starfandi einstaklingur
Þegar samið er um að utanaðkomandi aðili, lögaðili eða sjálfstætt starfandi einstaklingur, tekur að sér umsýslu með NPA þjónustu fyrir notanda ganga greiðslur frá sveitarfélaginu beint til þess umsýsluaðila. Við þessar aðstæður er um að ræða atvinnurekstur með öllum almennum skyldum þar um, þ.m.t. að rekstraraðili tilkynni sig á launagreiðendaskrá, sbr. eyðublaðið RSK 5.02, og geri skil á staðgreiðslu, tryggingagjaldi og iðgjaldi í lífeyrissjóð af launum til launamanna sinna Um frádrátt á móti atvinnurekstrartekjum gilda ákvæði 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Persónulegur kostnaður er aldrei frádráttarbær.
Ef um er að ræða þjónustu við einstakling sem er 18 ára eða eldri þá skiptir ekki máli hvort umsýsluaðili er foreldri eða ættingi notanda, eða einhver utanaðkomandi, sömu reglur gildi í skattalegu tilliti. Ríkisskattstjóri gerir út af fyrir sig engar sérkröfur um fyrirkomulag á rekstri.
Greiðslur sveitarfélaga fyrir NPA þjónustu til notenda bera ekki virðisaukaskatt. Umsýsluaðli, hvort sem um er að ræða lögaðila eða sjálfstætt starfandi einstakling, telst hins vegar virðisaukaskattsskyldur vegna hluta greiðslnanna, þ.e. þess hluta sem markaður er til að greiða umsýslukostnað (nú 10%). Sá fyrirvari er þó gerður hér að þeir sem selja skattskyldar vörur og þjónustu fyrir minna en 2.000.000 kr. á hverju 12 mánaða tímabili eru undanþegnir virðisaukaskattsskyldu (fjárhæðin var 1.000.000 kr. til 1. janúar 2017).